laugardagur, ágúst 04, 2007

Sumir dagar eru sérstakari en aðrir, þessi dagur var það.. 3. ágúst 2007

Í dag var amma mín jörðuð... það var mikið tilfinningaflóð sem fór yfir mig þegar ég sat í kirkjunni í morgun og hlustaði á prestinn. Mig langaði helst að hágráta en reyndi að stilla mig og vera sterk því ég veit að hún er á betri stað núna, þau afi eru loksins saman á ný...

Það er bara svo erfitt að sætta sig við að það sé ekki lengur hægt að fara til ömmu Distu... alveg ótrúlega sjálfselsk hugsun... en mikið var notalegt að vera hjá ömmu og afa... og guð hvað ég sakna þess!! En allar þær yndislegu minningar sem ég á af ömmu og afa, lifa í hjarta mínu alla ævi...

Þetta leiddi til þess að ég fór að velta fyrir mér lífinu, hvað tíminn líður hratt og hvað aðstæður eru fljótar að breytast. Einn daginn ertu áhyggjulaus lítil afastelpa sem heldur að bíllinn hans afa kunni að tala og rati um allan bæ og þann næsta ertu útskrifaður viðskiptafræðingur og bankastarfsmaður sem tekur virkan þátt í hinni síauknu útrás Íslendinga - the real life!

Undanfarnar vikur hefur líf mitt tekið á sig nýja mynd. Það er jákvæð þróun... aukin ábyrgð, mikill lærdómur og góðir vinir bæst í hópinn. Ég finn að ég er skrefi nær því að finna sjálfa mig, það vantar bara herslumuninn... og þá verð ég tilbúin að gefa mig alla í það sem ég er að gera.

Ég á mér stóra drauma - drauma sem ég er staðráðin í að láta rætast... suma sem virðast alltaf færast nær og nær því að verða að veruleika...

En með hverju árinu finnst mér tíminn líða hraðar... mig langaði því að nýta tækifærið og minna ykkur og sjálfa mig á að lifa í núinu og gefa hvort öðru tíma og njóta augnabliksins - því þegar uppi er staðið eru það samverustundirnar með fjölskyldu og vinum sem gefa lífinu hið raunverulega gildi! - þar verða minningarnar til...

Elskið friðinn og strjúkið á kviðinn, eins og mamma segir alltaf...